Hverjir eru þínir styrkleikar?
Þeir sem þekkja eigin styrkleika og leggja rækt við þá eru líklegri til að taka ígrundaðri ákvarðanir, fást við verkefni sem eru á þeirra áhugasviði og ná árangri. Farsælt val byggir oft á þekkingu á áhuga og styrkleikum. Ef við skilgreinum ekki styrkleika okkar er hætt við að þeir séu vannýttir. Það vex sem að er hlúð. Okkur getur verið tamt að segja: ,,Ég vil láta aðra dæma um mína styrkleika fremur en að hampa þeim sjálf/ur.“  Að vera ómeðvitaður um eigin styrkleika er hins vegar eins og að ganga með verkfæratösku í hendinni en opna hana aldrei. Styrkleikarnir eru verkfærin okkar. Þar sem styrkleikar og áhugi mætast  er líklegt að árangur skapist. Það er engin þörf á að vera sífellt að ræða um styrkleika sína við aðra en það er lykilatriði að þekkja þá og nýta í daglegu lífi.

Hefur þú daglega tækifæri til að gera það sem þú gerir best?
Við höfum tilhneigingu til að dvelja við það sem miður fer, sem er eðlilegt að vissu marki  en aðeins meðan við erum að læra af því og skoða hvað hægt er að gera betur. Hins vegar er hollt að verja ríkulegum tíma í að skoða það sem vel gengur og efla tækifærin einmitt á því sviði. Styrkleikarnir eru vindurinn í seglin. Þegar við hlúum að þeim eflumst við og þannig eykst sjálfstraust okkar. Við verðum ánægðari og eigum auðveldara með að afmarka okkur.  Um leið getum við látið gott af okkur leiða á því sviði þar sem styrkur okkar liggur.

Þekkjum eigin styrkleika og hlúum að þeim.
Hverjir eru styrkleikar þínir sem einstaklings og sem starfsmanns? Sem föður/móður/sonar eða dóttur? Sköpum okkur sérstöðu sem byggir á styrkleikum. Hópur einstaklinga með ólíka styrkleika skapar sterka heild. Ræðum styrkleika samferðamanna okkar við þá, barnanna okkar, samstarfsmanna, yfir- og undirmanna. Það er uppbyggileg umræða sem skapar aukna sjálfsvitund og  grósku til góðra verka. Með trú á eigin styrkleika sköpum við tækifæri.

Ert þú búin/n að skrá niður fimm styrkleika sem einkenna þig og þú ætlar að leggja rækt við?

Setjum það uppbyggilega undir ljósið!

Sigríður Hulda Jónsdóttir
SHJ ráðgjöf

Styrkleikar

Skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.