Sigríður Hulda er eigandi og framkvæmdastjóri SHJ ráðgjafar sem sérhæfir sig í fræðslu og ráðgjöf fyrir vinnustaði með áherslu á starfsmannamál og stjórnun, s.s. starfsánægju og starfsárangur, stjórnendaþjálfun, stefnumótun, vinnustaðamenningu, samskipti og samskiptasáttmála, álag og krefjandi aðstæður. Sigríður Hulda sérhæfir sig í færniþáttum atvinnulífs á 21. öldinni í tengslum við þróun vinnumarkaðar og starfshæfni einstaklinga. Hún vinnur með hópa frá Virk og Vinnumálastofnun með áherslu á starfshæfni, persónlega stefnumörkun, áhrifaþætti á sjálfstraust, áhugasvið, þjálfun í atvinnuviðtali, gerð ferilskrár, styrkleikagreiningar, úrvinnslu kulnunar og áfalla með áherslu á valdeflingu, seiglu, bjargráð, lífsviðhorf og trú á eigin getu.

Frá Háskóla Íslands hefur Sigríður Hulda MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf með áherslu á starfs- og atvinnulífsþróun, MBA í stjórnun og viðskiptum, BA í uppeldis- og menntunarfræði og kennsluréttindi.

Um áratugaskeið hefur Sigríður Hulda starfað í tengingu við öll skólastig sem náms- og starfsráðgjafi og stjórnandi bæði við Háskólann í Reykjavík (forstöðumaður Stúdentaþjónustu) og Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Hún hefur setið í ótal nefndum og ráðum sem snúa að menntamálum, forvörnum og stöðu ungs fólks. Um árabil hefur hún verið verkefnastjóri fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið og setið í ýmsum stjórnum sem fulltrúi þess og auk þess stýrt verkefnum fyrir Lýðheilsustöð (nú Landlæknisembættið), símenntunarmiðstöðvar o.fl.

Sigríður Hulda hefur starfað í mörgum evrópskum rannsóknarverkefnum sem hafa fengið viðurkenningar fyrir vinnu á sviði skólamála, botthvarfs og velferðar ungmenna. Hún hefur gefið út námsefni um lífsleikni og handbók um náms- og starfsráðgjöf ásamt tveimur öðrum sérfræðingum. Sú bók hefur verið gefin út á ensku, dönsku og sænsku og er notuð í fjölda skóla og kennd við háskóla. Sigríður hlaut Fulbight styrk og var við nám og störf í San Francisco. Sigurður Hulda hefur einnig hlotið styrk frá Rótarý hreyfingunni til að kynna málefni Íslands í USA. Hún hefur haldið fjölda námskeiða og erinda á ráðstefnum hérlendis og erlendis.