Samskiptafærni sem atvinnurekendur meta mikils við mannaráðningar
Farið er ítarlega í gegnum þá þætti í samskiptaæfni sem atvinnurekendur telja mikilvægasta hjá starfsmönnum sínum á 21. öldinni samkvæmt nýjum rannsóknum. Þátttakendur ræða um eigin styrkleika, hvernig þeir nýta þá sem best og sóknarfæri þeirra á þessu sviði.
Um er að ræða tvær útgáfur af þessu námskeið. Annars vegar er námskeið fyrir starfsmenn sem ekki eru með mannaforráð og hins vegar fyrir stjórnendur með mannaforráð og er þá farið í leiðréttingarsamtöl við starfsmenn, leiðir til að breyta hegðun starfsmanna, samskipti við undirmenn o.fl.
Góð samskiptafærni er gríðarlega mikilvæg og getur skipt sköpum varðandi farsæld í starfi og einkalífi. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að þátttakendur átti sig á eigin samskiptamynstrum. Hver og einn kortleggur hvað er gagnlegt og árangursríkt í samskiptastíl viðkomandi og hvað mætti betur fara. Á námskeiðinu þurfa þátttakendur að líta í eiginn barm og setja sér markmið varðandi eigin samskiptaaðferðir í því skyni að ná betri árangri og aukinni ánægju. Sérstaklega er farið yfir vænlegar leiðir til að ná fram breytingum í samskiptamynstrum, samvinnu í hóp og ólíkum samskiptastílum. Farið er yfir þessi atriði á námskeiðinu auk þess sem þátttakendur vinna verkefni.
Fjallað um eigin ábyrgð í samskiptum, lykilatriði í árangursríkum samskiptum og tengingu samskipta við eigin vellíðan. Unnið er með jafnvægi í lífsstíl, bjargráð, sjálfsaga og mikilvægi þess að leggja áherslu á jákvætt lífsviðhorf. Námskeiðið getur verið sérsniðið að hópum sem vinna náið saman þar sem gagnkvæm virðing og góð samskipti eru lykilatriði. Námskeiðið hefur með góðum árangri verið nýtt fyrir hópa þar sem þarf að bæta samskiptin, vinna með liðsheildina og ákveðna samskiptaerfiðleika.
Virk hlustun og ,,ég skilaboð“
Í hraða nútímas gleymum við oft að hlusta en leggjum ofur áherslu á að komast sjálf að í umræðunum. Hlustun er einn veigamesti þátturinn í samskiptum og tækifærið til að skilja menn og málefni. Farið er ítarlega yfir þá tækni sem beitt er í virkri hlustun og gerðar æfingar. Með virkri hlustun áttu auðveldar með að setja þig í spor annarra og sá sem hlustað er á finnur fyrir virðingu og áhuga þess sem hlustar. ,,Ég skilaboð“ fela í sér samskiptaform þar sem við tölum út frá sjálfum okkur og segjum hvað okkur finnst í stað þess að dæma þann sem við tölum við eða segja hvað okkur finnst neikvætt í framkomu hans. Þegar við notum ég skilaboð einkennast erfið samskipti af virðingu í stað dómhörku. Námskeiðið hentar vel til að efla gæði samskipta, virðingu og skilning milli einstaklinga og/eða sviða.
Sendu mér skilaboð og ég svara þér