Áhersla  á farsæl samskipti
hefur samkvæmt rannsóknum aukist meðal atvinnurekenda og annarra sem sjá um mannaráðningar. Það þykir eftirsóknarvert að búa yfir góðri samskiptafærni svo sem að geta ,,lesið í“ umhverfið til dæmis með því að setja sig í spor annarra, koma sínu á framfæri með málefnalegum hætti, sætta sjónarmið og koma auga á ný tækifæri.

Virðing og heilindi
skapa traust sem er grunnur góðra samskipta. Virðingin snýr bæði að manni sjálfum, öðrum einstaklingum og málefninu.  Að vera trúr því sem rétt reynist.

Sjálfsþekking, sjálfstraust og ábyrgð á eigin hegðun
er grunnur samskiptfærni og vellíðunar. Öflugt sjálfstraust vinnur með samskiptafærni okkar, það gerir einnig þekking á eigin styrkleikum og sjálfsagi sem eflir okkur við hverja áskorun.

Áttum við okkur á því hvaða ,,strauma“ við sendum frá okkur og hvernig við höfum áhrif á umhverfið? Nennum við að vanda okkur í krefjandi samskiptum eða leyfum við ,,tigrísdýrinu“ að ganga lausu?

Erfið samskipti stjórnast oft af ótta
við að missa völd eða virðingu, missa tökin eða ,,grímuna“, ótta við að aðrir ,,valti“ yfir mann. Skortur á sjálfsaga kyndir einnig undir erfið samskipti, við látum eftir okkur dómhörku, fýlu eða skapofsa. Það er ekki skemmtilegt, ekki sérstaklega þroskuð nálgun og alls ekki lausnarmiðað.

Bara ef hann/hún væri ekki svona
þá væri þetta allt betra. Það er auðvelt að festast í þeirri hugsun að samskiptin væru betri ef hinn aðilinn væri öðruvísi. Við stjórnum ekki öðrum, breytum ekki öðrum – en við stjórnum og breytum okkur sjálfum.  Þar liggur okkar vald, möguleikar og lausn. Breytum framkomu okkar í erfiðum samskiptamynstrum því þannig breytum við samspilinu öllu.

Ögum okkur til bættra samskipta.

Hver eru þín sóknarfæri í samskiptum?

Sigríður Hulda Jónsdóttir
SHJ ráðgjöf

Samskipti

Skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.