Efling gleðinnar

Námskeiðið byggir á rannsóknum innan jákvæðrar sálfræði og tengingu við hugræna atferlismótun. Daglegar hugsanir okkar og venjur stýra miklu um viðhorf okkar og hvernig okkur tekst að takast á við verkefni daglegs lífs. Farið er yfir þá grunnþætti sem efla jákvæðni og vellíðan og gera okkur kleift að takast á við áskoranir og njóta daglegs lífs.

Náðu árangri undir álagi: Streita og bjargráð

Í nútímasamfélagi er nauðsynlegt að átta sig á daglegum áreitum í lífi okkar, geta notið þeirra eða tekist á við þau þannig að lífsgæði okkar aukist. Í álagi felast oft tækifæri til vaxtar en álagstímabil má ekki verða að lífsstíl. Þátttakendur námskeiðsins gera verkefni til að auka sjálfsþekkingu sína, greina áreiti í eigin lífi og átta sig á eigin viðbrögðum við álagi. Leiðir til að forgangsraða og viðhalda jafnvægi í daglegum verkefnum jafnt sem á álagstímum eru ræddar ásamt heppilegum næringarlindum og bjargráðum á álagstímabilum. Fjallað er um jákvæða hugsun, eigin viðhorf og lífshætti án steitu. Slökunaræfing.

Efnsiþættir:

  • Sjálfsþekking
  • Sköpun tækifæra
  • Einkenni álags
  • Viðbrögð við álagi
  • Fullkomnunarárátta
  • Jákvæð hugsun og viðhorf til álags
  • Álagstímabili – lífsstíll

Jafnvægi einkalífs og starfs

Fjallað er um mikilvægi þess að skapa sér lífsstíl sem einkennist af jafnvægi milli ólíkra hlutverka einstaklingsins. Rætt er um leiðir til að hlúa að jákvæðu viðhorfi, skipulagi og sjálfsaga sem leiðir til jafnvægis. Þátttakendur greina ógnir við eigin jafnvægi og setja sér markmið í því skyni að efla jafnvægi starfs og einkalífs.

Er gaman í vinnunni? Áskoranir og (starfs)ánægja

Vinnan er stór hluti af lífi okkar og vellíðan á vinnustað skiptir máli fyrir lífsgæði okkar almennt. Á námskeiðinu er fjallað um viðhorf til verkefna, vinnustaðarins og vinnufélaga. Rætt er um samskiptahætti, hollustu, tilhlökkun og skipulag verkefna. ,,Hvaða strauma sendir þú frá þér?“ er spurning sem þátttakendur vinna með. Sérstaklega er unnið með hrós og endurgjöf og fleiri leiðir til að hlúa að góðu andrúmslofti / vinnustaðamenningu. Endurteknar breytingar og aukið álag getur komið niður á starfsánægju ef ekki er unnið með líðan og viðhorf starfsmanna. Ánægðir starfsmenn sem hafa metnað fyrir hönd vinnustaðarins skila betra verki og sterk liðsheild gerir lífið skemmtilegra!

Þekkir þú áhugasvið þitt? Hvert stefnir þú? Áttu þér draum?

Rannsóknir sýna að þeir sem þekkja sjálfan sig, áhugasvið og styrkleika eru líklegri til á ná árangri og vera sáttari við lífsmynstur sitt. Fjallað er um leiðir til að auka sjálfþekkingu, kenningar um áhugasvið og tengingu þess við starf og leik. Boðið er upp á áhugasviðskönnun þar sem þátttakendur tengja eigin niðurstöðu við starfssvið, tómstundir og starfsánægju. Áhugakannanir auðvelda einstaklingum að koma skipulagi á áhugasvið sitt og auka þannig sjálfsþekkingu.

Að njóta eða þrauka – uppeldi barna

Það er mikið ábyrgðarhlutverk að vera foreldri. Foreldara hafa margvísleg áhrif á börn sín í gegnum uppeldið, heimilisbrag og ekki síst sem fyrirmyndir. Fjallað er um lykilatriði í uppeldi til árangurs, ólíkar uppeldisaðferðir svo sem leiðandi uppeldi, skipandi uppeldi og undanlátssemi í uppeldi. Rætt er um mikilvægi þess að foreldrar setji uppeldið í öndvegi en geti um leið hlúð að sjálfum sér og sambandi sínu hvort við annað.

Geðorðin tíu

Námskeiðið byggir á tíu þrepum og eru sótt í geðorðin tíu. Unnið er með hvert þrep og þátttakendur tengja hvert þrep eigin persónu og lífsstíl. Þáttakendur vinna einstaklings­verkefni og í hópum og gera að lokum skrifleg markmið/áætlun þar sem þeir velja sér geðorð sem þeir ætla að „innleiða“ í líf sitt í leik og starfi. Geðorðin eru byggð á því sem einkennir farsælt fólk og eru þannig ábendingar til þeirra sem sækjast eftir velgengni og vellíðan í lífinu. Geðorðunum hefur verið dreift víða um land á undanförnum árum á veggspjöldum og póstkortum.

Geðorðin 10

  1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
  2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um
  3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
  4. Lærðu af mistökum þínum
  5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina
  6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu
  7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig
  8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup
  9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína
  10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast

Sendu mér skilaboð og ég svara þér