Jákvætt viðhorf
er valkvætt. Jákvætt viðhorf er grundvöllur velgengni í persónulegu lífi og starfi. Ýmsar rannsóknir sýna að viðhorf hafi ekki aðeins áhrif á lífsgæði okkar heldur einnig heilsu og lífslíkur. Á sama hátt og við tileinkum okkur ákveðna færni  til að geta leyst ákveðin verkefni er nauðsynlegt að tileinka sér jákvætt viðhorf. Jákvætt viðhorf skapar lausnir, myndar tækifæri og eykur vöxt. Neikvætt viðhorf skapar hindranir, spennu og vanlíðan.

Veldu þér viðhorf
sem einkennir þig. Veldu þér viðhorf fyrir daginn í dag. Viðhorf til krefjandi verkefnis sem bíður þín,  til samstarfsmanns sem getur reynt á þolinmæðina, til nágrannans, til barnsins þíns sem vill ekki fara að hátta eða segir alltaf að það sé ekkert heimanám í dag.

Viðhorfið mótar nálgun
okkar á viðfangsefninu. Erum við meðvituð um það sem vel gengur og er jákvætt í umhverfi okkar eða fer meiri orka í að hugsa um það sem við vildum að væri öðruvísi? Setjum við okkur í spor þess sem um ræðir eða dæmum við hann jafnvel fyrirfram? Erum við stundum ,,fúll á móti“? Lítum við á  verkefnið sem krefjandi og lærdómsríkt eða leiðinlegt og erfitt?

Viðhorf okkar til eigin persónu
ræður einna mestu um framgang okkar í daglegu lífi. Treystum við á okkur sjálf í verkefnum lífsins og sköpum þannig innra með okkur viðhorf öryggis og lausna? Virðum þarfir okkar og langanir um leið og við ögum okkur til að vera besta útgáfan af sjálfum okkur. Jákvætt viðhorf til sjálfs sín kallar fram hæfni okkar og styrk sem auðveldar árangur verkefna og samvinnu.

Ögum okkur til að velja jákvætt viðhorf
daglega. Þegar við lendum út af sporinu þekkjum við leiðina á jákvæða braut á ný. Álag, áföll og erfið samskipti geta verið fóður fyrir neikvætt viðhorf.  Við búum yfir mismunandi lundarfari, sá sem er í eðli sínu með létta lund á auðveldara með að viðhalda jákvæðu viðhorfi í lífsins ólgusjó. Hinn sem er með þyngri skapgerð  þarf sterkan vilja til að láta jákvætt viðhorf einkenna daginn. Sú áskorun getur skipt sköpum fyrir lífsgæði viðkomandi.

Þegar tekist er á við stórar áskoranir
í lífinu er mikilvægara en nokkru sinni að leggja sig fram um að velja jákvætt viðhorf. Staldra við og draga fram það hlýja og bjarta. Það er mikill styrkur að búa yfir jákvæðu viðhorfi sem gerir það að verkum að  ,,glasið er oftast hálffullt“.

Jákvætt viðhorf gerir lífið skemmtilegra!

Sigríður Hulda Jónsdóttir
SHJ ráðgjöf

Viðhorf

Skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.