Hvað gladdi þig í dag?
Eitthvað sem gekk vel í vinnunni, góð súpa, spjall við barnið þitt, jólaljósin, nánd við ástvin eða jafnvægi á heimilinu? Þakklæti er einn af hornsteinum hamingjunnar. Þeir sem ástunda þakklæti eru líklegir til að telja sig hamingjusama. Temjum okkur að veita litlu jákvæðu atriðunum í hversdaglegu lífi athygli og rými. Njóta þeirra og þakka fyrir þau. Þannig upplifum við innihaldsríkara líf, komum betur auga á ríkidæmið sem felst í daglegu stússi  – lán okkar og hamingju.  Þannig vinnum við gegn pirringi og öðlumst yfirsýn til að gera breytingar sem auka farsæld í hversdagslegu lífi.

Hvernig auðgum við líf okkar?
Leiðum hugann að því sem skapar vellíðan og ánægjustundir. Tvinnum við þessa þætti inn í lífsstíl okkar og veitum við þeim nægilegan forgang? Lífið er kaflaskipt. Verum meðvituð um að þessir þættir eru hverfulir og verða ekki alltaf hluti af lífi okkar í sömu mynd og nú. Gerum hlutina ekki að kvöð, gerum þá að tækifærum. Ákveðum t.d. að það sé gæðastund að skutla barninu okkar, þá gefst tími til að spjalla. Samvera í bíl getur verið góð samvera.

Hversu mikið er nóg?
Ögum okkur til að staldra við, þakka og njóta. Við þurfum ekki alltaf meira en við höfum, en við þurfum að kunna að njóta þess sem við höfum og hlúa að því. Viðhorf okkar og meðvitund skiptir mestu máli. Festum okkur ekki í því liðna eða hugrenningum sem vinna gegn þakklæti og lífsgleði, eins og ,,Hef ég nóg til að þakka fyrir? Ef ég ætti maka, barn, bíl, hefði betri heilsu og góða vinnu eða hærri laun…þá hefði ég ástæðu til þakklætis.“ Það er gott að setja sér markmið en að eltast sífellt við það sem ekki er til staðar skapar tómleika og vonbrigði.

Þakkardagbók, æfum þakklæti.
Einföld og góð leið til að efla þakklæti er að hafa litla bók á náttborðinu til að punkta niður það jákvæða sem við upplifðum þann dag. Þannig endurupplifum við það sem gott er og gefum því aukið rými í huga okkar. Hinn þakkláti skapar gleði og tækifæri, sá neikvæði áttar sig ekki á því sem hann hefur og nýtur þess ekki.

Sigríður Hulda Jónsdóttir
SHJ ráðgjöf

Þakklæti

Skilaboð

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.