Er streitan hvetjandi eða hamlandi afl í lífi þínu?
Hæfilegu álagi fylgir kraftur og einbeiting til að koma hlutum í verk. Streituástand einkennist af örvun þar sem við nýtum mikla orku í því skyni að takast á við einhvers konar ógn. Sumir kunna vel við sig í þessum ham, finnst þeir ,,vera í stuði“ og telja sig vinna best undir pressu. Hins vegar er ekki hollt þegar streituástand verður að lífsstíl, sífelldu kapphlaupi við tímann, verkefnin – okkur sjálf. Þegar um viðvarandi álag er að ræða fara varnir líkamans að slævast, við erum móttækileg fyrir umgangspestum, finnum fyrir verkjum, verðum stutt í spuna og hlæjum minna. Streitan leggst yfir okkur eins og þokan yfir dalinn, við áttum okkur kannski ekki á breytingunni sjálf, en áður létt verk verða kvíðvænleg og lífsgæðin skerðast. Margt getur valdið streitu svo sem álag og tímapressa, áföll, breytingar, áhyggjur og tilgangsleysi.
Lífsstíll okkar þarf að innihalda rólegar stundir
og leiðir til endurnæringar þannig að jafnvægis gæti. Við vitum að hvíld, hreyfing, uppbyggilegur félagsskapur og hollt mataræði vinnur gegn streitu. Sama gildir um skipulag, reglufestu og jákvætt viðhorf.
Óreiða er fóður fyrir streitu meðan reglufesta og jafnvægi vinnur gegn streitu.
Að byggja sjálfsmat sitt á hnökralausri frammistöðu veldur spennu, burt með fullkomnunaráráttuna! Markaleysi, eða skortur á því að setja mörk í samskiptum og vinnu veldur tilfinningum á borð við stjórnleysi, þreytu og pirring. Við þurfum einnig að setja sjálfum okkur mörk: Nóg er nóg.
Hættir þér til að keyra þig út – of oft?
Megin verkefni okkar í lífinu er að hlúa að þeirri manneskju sem við sjálf erum til að hún geti nýtt styrkleika sína, látið gott af sér leiða og verið til fyrirmyndar. Taka ábyrgð á sjálfum sér. Ekki svíkja sjálfa/n þig með því að velja að lifa stöðugt í tímapressu og þeim lífsstíl sem brennir kertið í báða endana.
Sigríður Hulda Jónsdóttir
SHJ ráðgjöf